154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:05]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ef ég skil fyrirspurnina rétt er hv. þingmaður að spyrja um umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á sviði heilbrigðisvísinda og heilbrigðistækni. Ég hef fundað gríðarlega mikið með þeim síðustu misseri, alveg frá því að ég kom fyrst í ráðuneytið. Ég setti fram sérstaka áherslu með því að tilkynna fléttuna þar sem maður heyrði af umhverfi þeirra, að þau væru ánægð með stuðningsumhverfið. Stuðningsumhverfið væri orðið mjög gott, þau fengju mikinn stuðning í sjóðaumhverfinu og endurgreiðslum rannsóknar og þróunar en væru ekki að fá tækifæri í heilbrigðisstofnununum til að ná árangri og innleiða sína tækni og nýsköpun; að þau ættu erfitt með að fá samtöl um það að hverju þau þyrftu að gæta innan íslenska kerfisins o.s.frv. Fléttan var tilkynnt sem gerði það að verkum að styðja við nýsköpunarfyrirtæki og heilbrigðisstofnanir við að innleiða nýsköpun, að prófa sig áfram saman, að eiga samtalið. Og úr því hafa orðið alveg ótrúlegar sögur. Þetta eru sögur sem ég gæti ekki verið meira stolt af því að heyra, að sjá þessa heilbrigðistækni, þetta flotta fólk okkar í nýsköpunargeiranum, sem oft er með bakgrunn í heilbrigðismenntun, vera að reyna að finna lausnir og tækni við áskorunum heilbrigðiskerfisins og er nú að gera gagn með því að hafa fengið stuðning við innleiðingu í heilbrigðisstofnunum og fyrirtækjum. Síðan er auðvitað mikilvægt að fjölga heilbrigðisstarfsmönnum. Það er sérstök áhersla á það og hefur verið aðgerðaáætlun í gangi undanfarið. Við erum strax í haust að sjá fjölgun í læknadeild og hjúkrunarfræðideildum og fleiri deildum og aukinn stuðning við færni- og hermisetur, sem skiptir auðvitað miklu máli.

Við heilbrigðisráðherra þurfum að vinna þetta allt saman. Það skiptir máli að umhverfi fólks með þennan bakgrunn sé gott. Ég hef lagt sérstaka áherslu á (Forseti hringir.) það að við innleiðum meiri heilbrigðistækni og nýsköpun enda tel ég að við getum ekki rekið heilbrigðiskerfið með áframhaldandi hætti án þess.